Greinin birtist í jólablaði Herópsins 2020.
Haustið 2020 hóf Hjálpræðisherinn í Reykjanesbæ samstarf við KFUM&KFUM um sameiginlegt unglingastarf. Starfið er á miðvikudagskvöldum kl. 20-21:30, boðið er upp á mat kl. 19 og starfið er ætlað fyrir unglinga í 8.-10. bekk grunnskóla.
Almar Ingi Ólason, starfsmaður Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ, segir starfið hafa farið rólega af stað í haust. „Þetta er kannski svolítið sérstakur tími til að reyna að byggja upp svona starf. Við vorum bara búin að hittast fjórum sinnum þegar samkomubannið skall aftur á. Við erum hægt og rólega að byggja upp kjarna í starfinu og hingað til hafa unglingafundirnir verið frekar rólegir, spil, spjall og fleira sem okkur dettur í hug.“
Ásamt Almari eru þau Pétur Bjarni Sigurðarson frá KFUM&KFUK og Ásdís Birta Magnúsdóttir leiðtogar í starfinu. Ásdís Birta hefur tengst starfi Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ nánast frá upphafi. „Ég byrjaði í starfi hjá KFUK þegar ég var lítil en svo þegar Hjálpræðisherinn kom til Reykjanesbæjar fór ég að taka meiri þátt þar,“ segir Ásdís Birta. Ég var í 7. bekk þegar ég byrjaði í kórnum Gospelkrökkum en ég tók líka þátt í unglingastarfi og fleiru. Svo datt ég aðeins úr starfinu á tímabili en byrjaði aftur og tók þá við stjórn Gospelkrakka, ásamt tveimur öðrum stelpum. Síðustu ár hefur kórstarfið svo legið niðri, við höfum talað um að byrja aftur en það hefur ekkert orðið úr því.“
Í sumar heyrði Ásdís Birta svo að breytingar væru framundan í Hjálpræðishernum í Reykjanesbæ. „Hjördís (svæðisforingi) sagði mér frá þessu og spurði hvort ég hefði áhuga á að vera með. Ég sagði ekki neitt en svo gat ég ekki hætt að hugsa um þetta. Tveimur mánuðum seinna spurði ég hana hvort það væri ennþá í boði að vera með og ég fékk svarið að það væri alltaf pláss fyrir gott fólk á Hernum.“
Hvernig er að vera komin aftur í starfið eftir nokkurra ára fjarveru? „Það er geggjað! Þetta er bara pínu eins og að koma heim, þegar ég hitti fólkið aftur var bara eins og við hefðum síðast hist í gær. Fyrst var svolítið skrýtið að koma á Herinn, ég var alltaf þarna en allt í einu kom ég eins og hálfgerður gestur. En það tók ekki langan tíma og núna er Herinn aftur orðið mitt annað heimili.“
Unglingastarfið er, sem fyrr segir, samstarf Hjálpræðishersins og KFUM&KFUK. Ásdís Birta segir hugmyndina vera að byggja upp sterkan kjarna og kynna starfið svo fólkið í nærsamfélaginu verði meðvitað um starf Hjálpræðishersins. Einnig standi vonir til að hægt verði að byrja með barnastarf. „Það er spennandi að hafa starfið í samstarfið við KFUM&KFUK. Við stefnum á að taka bæði þátt á viðburðum á vegum Hersins og KFUM&KFUK. Svo býður starfið upp á alls konar möguleika, samstarf við unglingastarfið í Reykjavík og fleira.“
Ásdís Birta segir starfið fara vel af stað. „Krakkarnir eru opnir og jákvæðir. Sum þeirra hef ég þekkt síðan þau voru lítil og það er gaman að fá að vera með þeim í unglingastarfi núna. Þau eru líka dugleg að bjóða fleirum með sér, fyrst komu 2, svo 5 og þriðju vikuna voru unglingarnir orðnir 10! Ég er spennt að sjá hvernig framtíðin verður, við fáum það besta frá báðum félögum og ég held að þetta geti orðið mjög skemmtilegt starf,“ segir Ásdís Birta að lokum.