Hjálpræðisherinn er skráður sem trúfélag á Íslandi og hefur verið það frá árinu 2012. Þeir sem skrá sig í trúfélagið styrkja starfið fjárhagslega með því að sóknargjöldin (sem eru hluti af skatti allra skattgreiðenda) renna til Hjálpræðishersins. Hægt er að skrá sig í trúfélagið á vefsíðu Þjóðskrár.
Samherji er kristinn einstaklingur sem lítur á Hjálpræðisherinn sem sitt andlega heimili og vill gerast formlega meðlimur Hjálpræðishersins. Samherji notar ekki búning og skrifar ekki undir hermannaheitin. Samherjar eru hvattir til að taka virkan þátt í starfi Hjálpræðishersins og styrkja starfið fjárhagslega.
Hermaður er kristinn einstaklingur sem vill lifa lífi sínu eftir orði Guðs, lítur á Hjálpræðisherinn sem sinn söfnuð og stað til að þjóna Guði og vill gera lífsstílsloforð sem tengjast hugmyndum og gildum Hjálpræðishersins. Þeir sem vilja gerast hermenn gera það í samráði við foringja og byrja á að fá hermannafræðslu. Í hermannafræðslu er farið yfir trúargreinar Hjálpræðishersins, hermannaheitin o.fl. Hermenn nota búning Hjálpræðishersins, með bláum spælum.
Hermannaheitin eru eftirfarandi:
1. Ég vil vera opin(n) og móttækileg(ur) fyrir heilögum anda og leyfa honum að stjórna lífi mínu þannig að ég megi vaxa í náð fyrir tilbeiðslu, bæn, Biblíulestur og þjónustu.
2. Ég vil með lífi mínu meta verðmæti Guðs ríkis meira en gæði þessa heims.
3. Ég vil vera kristin(n) af öllu hjarta í ölum athöfnum mínum og ekki hugsa, segja eða gera nokkuð það sem talist getur óverðugt eða óhreint, ósatt eða guðlast, óheiðarlegt eða siðlaust.
4. Ég vil breyta samkvæmt kristilegum hugsjónum í umgegni minni við fjölskyldu og nágranna, samstarfsmenn og hersystkini, þá sem ég er ábyrg(ur) gagnvart og ber ábyrgð á, svo og við aðra þegna samfélagsins.
5. Ég vil standa vörð um hjónabandið og friðhelgi fjölskyldunnar.
6. Ég vil kappkosta að verja vel tíma mínum, hæfileikum og eignum og varðveita hreinleika líkama míns, hugarfars og anda, þar sem ég veit að ég er ábyrg(ur) gagnvart Guði.
7. Ég vil ekki neyta áfengra drykkja, tóbaks, vímuefna né vanabindandi lyfja nema að læknisráði og forðast fjárhættuspil, klám, andakukl og hvað annað sem bundið getur líkama minn og anda í fjötra.
8. Ég vil starfa af alúð við verkefni þau sem Guð ætlaði Hjálpræðishernum með því að boða fagnaðarerindið um Jesúm Krist og gera allt sem í mínu valdi stendur til að ávinna aðra fyrir ríki hans. Sömuleiðis vil ég sýna þeim umhyggju sem eru þurfandi og eiga um sárt að binda.
9. Ég vil af fremsta megni taka þátt í almennu starfi Hjálpræðishersins, þjóna Guði og vitna um hann og einnig leggja fram fé til að styrkja starf Hjálpræðishersins.
10. Ég vil fylgja reglum og starfsháttum Hjálpræðishersins, vera trú(r) yfirboðurum mínum og sýna sannan heranda jafnt í blíðu sem stríðu.