Velferðarsjóður Hjálpræðishersins er að miklu leyti fjármagnaður með jólapottinum, árlegri söfnun sem fram fer í desember. Jólapotturin er því gríðarlega mikilvæg fjáröflun sem nýtist í nærsamfélaginu allan ársins hring. Stærstur hluti upphæðarinnar er notaður í matarkort til fjölskyldna og einstaklinga árið um kring. Auk mataraðstoðar, nýtast peningar úr velferðarsjóði meðal annars til að gera fólki kleift að taka þátt í viðburðum sem það annars hefði ekki átt kost á. Velferðarsjóðurinn greiðir einnig fyrir hina árlegu jólaveislu Hjálpræðishersins í Reykjavík.
Vegna heimsfaraldursins sér Hjálpræðisherinn bæði fram á aukin útgjöld úr velferðarsjóði á árinu 2020 og skerta innkomu í jólapottinn þessa aðventuna vegna sóttvarnaaðgerða. Því leitum við nú til einstaklinga í von um styrk. Símasöfnun hófst í dag, þar sem málið er kynnt fyrir fólki og boðið er upp á að styrkja Hjálpræðisherinn með því að stök krafa verði stofnuð í heimabanka. Söfnunin er hugsuð sem viðbót við jólapottinn og við vonum að henni verði vel tekið.
Einnig er hægt að styrkja starfið í gegnum örugga greiðslusíðu Borgunar með því að ýta hér.
Við þökkum kærlega fyrir allan stuðning.