Hjálpræðisherinn á Akureyri safnar prjónuðum flíkum allt árið og sendir til Grænlands fyrir jólin. Flíkurnar eru annars vegar gefnar heimilislausum í Nuuk og hins vegar seldar til að fjármagna súpueldhúsið Williamskaffe, þar sem þeir sem þurfa geta fengið heita máltíð.
Hjálpræðisherinn hefur starfað á Grænlandi síðan árið 2012. Í viðtali árið 2018 sagði Kurt Pedersen, flokksleiðtogi í Nuuk, að töluvert væri um heimilisleysi í Nuuk og vegna kuldans er beinlínis lífshættulegt að vera á götunni þar á veturna.
Í ár gekk söfnunin sérlega vel og mjög ánægjulegt að geta sent svo mikið til vina okkar í Hjálpræðishernum í Nuuk. Við fengum veglega sendingu frá prjónahópnum Vinaprjóni en auk þess eru flíkurnar frá Heimilasambandinu og prjónahópnum í Hjálpræðishernum á Akureyri og einni frá Hertex. Peysur, treflar, sjöl, eyrnabönd, handstúkur, vettlingar, sokkar og húfur, allt mun þetta nýtast vel! Við þökkum öllum sem hafa prjónað og heklað fyrir okkur kærlega fyrir þeirra framlag til þessa verkefnis.
Hér að neðan má sjá heimildarmynd um starf Hjálpræðishersins á Grænlandi.
Northern Lights – The Salvation Army's work in Greenland from Salvation Army IHQ on Vimeo.