Þrátt fyrir að enn sé verið að vinna í húsnæði Hjálpræðishersins á Akureyri, höfum við svo sannarlega ekki setið auðum höndum. Í samstarfi við Vistorku og Akureyrarbæ mun Hjálpræðisherinn taka að sér að koma áfram þeim mat sem veitingaaðilar gefa til þeirra sem á því þurfa að halda. Eins og stendur á vef Akureyrarbæjar, þá er þetta sannkallað samfélagsverkefni, þar sem aðkoma að verkefninu er víða að. Terra, Molta og Geimstofan hafa samþykkt að styðja við verkefnið meðal annars með gerð markaðsefnis og að koma matarafgöngum sem ekki tekst að útdeila rétta leið. Á komandi vikum munu allir veitingastaðir, veisluþjónustur, kaffihús og bakarí fá upplýsingar um þessa nýjung sem þeir geta nýtt sér til að sporna við matarsóun.
Þegar hefur verið hafin móttaka á matargjöfum, en einungis þeim sem hægt er að frysta. Sjálfboðaliðar Hjálpræðishersins munu sjá um að taka við, merkja og deila út matargjöfunum. Sjálfboðaliðar Hjálpræðishersins koma frá hinum ýmsu stöðum og með allskonar bakgrunn, þar á meðal má nefna einstaklinga frá VIRK og Starfsendurhæfingarstöð Norðurlands.
Það er svo sannarlega hægt að segja að þetta sé flott samfélagsverkefni sem snertir marga fleti samfélagsins og erum við hjá Hjálpræðishernum stolt af því að vera þátttakendur í verkefninu.