Linda Björk Hávarðardóttir var nýlega ráðin í starf verkefnastjóra BUH í Reykjavík. BUH stendur fyrir barna- og unglingastarf Hjálpræðishersins og Linda Björk mun vinna að uppbyggingu og þróun barna-, unglinga- og fjölskyldustarfs flokksins í samstarfi við flokksforingja. Linda Björk er tómstunda- og félagsmálafræðingur, með meistarapróf í mannauðsstjórnun og verkefnastjórnun.
„Þetta leggst ofsalega vel í mig,“ segir Linda Björk, sem hóf störf í síðustu viku. „Fyrstu dagarnir og vikurnar fara í að kynnast starfinu og fólkinu hér í flokknum og sjá hvernig þetta gengur allt saman fyrir sig. Ég þekkti mjög lítið til starfs Hjálpræðishersins, vissi af jólapottinum, jólaveislunni og Hertex verslununum, svo það er margt að læra.“
Starf verkefnastjórans er fjölbreytt og felst meðal annars í því að taka þátt í barna- og unglingastarfinu, fá fólk með sér til að vinna störfin og koma auga á sóknarfæri. „Mitt hlutverk til að byrja með er að kynnast starfinu, sjá hvað gengur vel og hvar við getum gert enn betur. Hér er margt gott fólk og ég er viss um að fullt af fólki hefði mjög gaman af því að koma hingað og taka þátt. Mitt hlutverk er ekki síst að markaðssetja starfið og opna augu fólks fyrir því sem hér er í boði. Við stefnum einnig að því að styrkja fjölskyldustarfið og lyfta því upp á hærra plan.“
Linda Björk hefur lengi verið virk í starfi Laugarneskirkju og syngur í kirkjukórnum þar. „Laugarneskirkja er kirkjan mín og börnin mín eru alin upp með annan fótinn í kirkjunni,“ segir Linda Björk sem sá líka um tíma um utanumhald unglingastarfs kirkjunnar. „Ég veit vel hvað kristilegt barna- og unglingastarf er mikilvægt, ég veit að krakkarnir mínir væru ekki á þeim stað sem þau eru í dag ef ekki hefði verið fyrir slíkt starf. Það er líka alveg ofsalega gaman að sjá starf þar sem krakkar fá að blómstra og vera þau sjálf.“
Við bjóðum Lindu Björk hjartanlega velkomna og óskum henni Guðs blessunar í sínu starfi.