Nútíma þrælahald

Umfjöllunin birtist í Herópinu 2019.

Þrælahald hljómar kannski eins og eitthvað frá liðinni tíð og öðrum heimshlutum. Staðreyndin er þó sú að þrælahald fyrirfinnst í flestum heimshlutum og þar er Ísland engin undantekning. Hjálpræðisherinn rekur öflugt starf víða um heiminn sem miðast að því að aðstoða fórnarlömb nútíma þrælahalds og koma í veg fyrir að fleiri lendi í slíkum aðstæðum. Á Íslandi er Hjördís Kristinsdóttir, flokksforingi í Reykjavík, tengiliður Hjálpræðishersins í mansalsmálum og er því einn hlekkur í keðju sem nær yfir þau 131 lönd sem Hjálpræðisherinn starfar í. 

Nútíma þrælahald er þegar persóna ræður yfir eða hefur stjórn á annarri manneskju með það að markmiði að nýta sér viðkomandi í eign þágu. Nútíma þrælahald er að finna í framleiðslu matvæla, fatnaðar, í byggingageiranum, gull og eðalsteinum, heilsustarfsemi, kynlífsiðnaði, veitingageiranum, heimilishjálp og líffærasölu úr fólki.

Mansal er að misnota aðra annað hvort til vændis eða í öðrum kynferðislegum tilgangi, til nauðungarvinnu/nauðungarþjónustu, í þrældóm eða með því að fjarlægja líffæri. Misnotkunin gerist með ofbeldi eða hótunum, misnotkun viðkvæmrar stöðu eða á annan ótilhlýðilegan hátt.

Mansal er alvarlegasta form nútíma þrælahalds, sú glæpastarfsemi sem vex hvað hraðast og ein stærsta tekjulind skipulagðra glæpa. Mansal er flókið mál sem orsakast af félagslegum, pólitískum, fjárhagslegum og menningarlegum þáttum. Orsakir mansals eru mismunandi og oft ólíkar frá einu landi til annars.

Fólk sem vill flytjast á milli landa er oft í viðkvæmri stöðu. Örvæntingarfullt fólk á flótta undan stríði, pólitískum óróleika, náttúruhamförum og fátækt getur endað sem réttlaust og verður auðveldlega fórnarlömb mansals. Án verndar verður þessi hópur í mörgum tilfellum fórnarlömb kerfisbundinnar glæpastarfsemi. Flótti frá slæmum aðstæðum endar fyrir suma í einhverju mun verra.

Þann 28. maí sl. stóð Hjálpræðisherinn fyrir fagdegi um mansalsmál og nútíma þrælahald í húsnæði Hersins í Reykjavík í Mjódd. Þar fjallaði Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari um réttindi fórnarlamba mansals og nútíma þrælahalds og Svala Ísfeld Ólafsdóttir sérfræðingur frá dómsmálaráðuneytinu talaði um áherslur stjórnvalda um aðgerðir gegn mansali og annars konar hagnýtingu. Einnig komu tveir gestir frá Hjálpræðishernum í Noregi, Petra Kjellen Brooke samhæfingarstjóri Hjálpræðishersins í Noregi, Íslandi og Færeyjum gegn mansalsmálum og nútíma þrælahaldi fjallaði um auðkenningu (mögulegra) fórnarlamba og tengslanet sem Hjálpræðisherinn ræður yfir. Leif Tore Solberg forstöðumaður Filemons, athvarfs fyrir karla sem eru (möguleg) fórnarlömb mansals eða annarrar hagnýtingar í Noregi sagði frá starfi sínu og kom einnig inn á mörkin milli mansals og hagnýtingar.   Fagdagurinn var einkar vel sóttur og voru starfsmenn ýmissa stofnana s.s. Lögreglunnar, útlendingastofnunar og fagfélaga auk félagasamtaka sem nýttu sér að koma og fræðast meira um þessi málefni.  Eftir fundinn var fólk sammála um að við þurfum að vera enn betur upplýst og á varðbergi í þessum málaflokki og að löggjöfin, ekki einungis hér á landi, heldur einnig víða annars staðar, gerir okkur erfitt fyrir þegar kemur að því að sækja fólk til saka sem er grunað um aðild að mansalsmálum og/eða nútíma þrælahaldi.  Langflestir voru einnig sammála um að öll fræðsla í þessum málaflokki væri af hinu góða og nauðsynlegt að byggja upp gott tengslanet hér á landi til að reyna að koma í veg fyrir og uppræta svona starfsemi.

 

 

HVAÐ GETUR ÞÚ GERT?

Ætlar þú að ráða starfsmann eða kaupa þjónustu eins og bílaþvott, barnagæslu, heimilisþrif, iðnaðarþjónustu eða garðvinnu? 


1. Forðastu svarta vinnu

Forðastu að nýta þér svarta vinnu eða starfsemi þar sem þú getur ekki fengið kvittun.


2. Gerðu verðkönnun

Er verðið of gott til að vera satt? Þetta getur verið vísbending um að þeir sem veita þjónustuna séu misnotaðir.


3. Kannaðu fyrirtækið

Flettu upp nafni fyrirtækisins eða vsk númeri þess á rsk.is.

Sé fyrirtækið skráð getur það verið vísbending um að starfsemin sé heiðarleg, þó svo að það sé engin trygging. Þú ættir einnig að biðja um reikning fyrir vinnunni þannig að þú vitir hvað þú hefur greitt fyrir. Og að lokum skaltu forðast að greiða fyrir vinnuna með reiðufé. Þegar maður greiðir fyrir þjónustu með bankaviðskiptum er erfiðara fyrir þjónustuaðilann að komast undan sköttum og gjöldum.


4. Kannaðu ráðningarform og útbúnað

Talaðu við þá sem vinna fyrir þig.

- Hafa þau góð verkfæri og góðan fatnað?

- Taka þau matarhlé?

- Eru þau viljug til samskipta eða forðast þau samskipti?

Ef eitthvað vekur grunsemdir ræddu þá við þann sem þú hefur gert samning við

Við augljósar vísbendingar um að eitthvað sé í ólagi getur maður haft samband við lögreglu.