Hjálpræðisherinn safnar árlega í jólapottana sína og nú um þessar mundir fara pottarnir út í Reykjavík, Akureyri og Reykjanesbæ. Þeir peningar sem þar safnast fara alfarið í velferðarsjóð Hjálpræðishersins á hverjum stað. Peningar sem safnast á Akureyri eru þannig notaðir í nærsamfélaginu þar og það sama á við um Reykjavík og Reykjanesbæ. Árið 2018 söfnuðust 9,2 milljónir króna í jólapotta Hjálpræðishersins á Íslandi. Ágóði úr Hertex verslununum fer einnig í velferðarsjóð.
Á Íslandi eru þeir fjármunir sem safnast í velferðarsjóði flokkanna notaðir á margvíslegan hátt. Stærstur hluti upphæðarinnar er notaður í matarkort til fjölskyldna og einstaklinga árið um kring. Einnig er velferðarsjóðurinn notaður til þess að reka opið hús í Mjódd þar sem allt að 200 manns koma vikulega,
þiggja heita máltíð og njóta góðrar samveru. Á Akureyri er opið hús fyrir fjölskyldur einnig rekið fyrir fé úr velferðarsjóði en þangað koma vikulega um 30 manns og eiga gæðastund saman auk þess að borða heita máltíð.
Árlega aðstoðar Hjálpræðisherinn fjölda fólks með fatnað og húsgögn og einnig kemur fyrir að aðstoða þarf með einstaka reikninga þegar þannig stendur á hjá fólki. Hvert dæmi er metið fyrir sig eftir þeim gögnum sem fyrir liggja. Velferðarsjóður greiðir einnig fyrir jólaveislu Hjálpræðishersins sem verður þetta árið haldin í Mjódd.
Peningar úr velferðarsjóði hafa líka verið notaðir til að gera fólki kleift að taka þátt í viðburðum sem fólk hefði annars ekki átt kost á. Auk þess má nefna fjölskyldusumarbúðir sem Hjálpræðisherinn ásamt Hjálparstarfi kirkjunnar hefur staðið fyrir síðustu ár. Þar gefst fjölskyldum kostur á að koma og taka þátt í skemmtilegri dagskrá í fallegu umhverfi og búa þannig til góðar minningar í sumarfríinu.
Hjálpræðisherinn er þakklátur þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem leggja starfinu lið með ýmsum hætti.