Mikil aðsókn hefur verið í jólaaðstoð Hjálpræðishersins í Reykjavík. Þangað gátu einstaklingar og barnlaus pör leitað um matarkort og í gær fengu um 150 manns matarkort hjá Hjálpræðishernum í Reykjavík. Þetta er meiri aðsókn en í fyrra. Þá eru um 250 einstaklingar skráðir í jólaveisluna sem haldin verður í Mjódd á aðfangadag.
Hjálpræðisherinn treystir að stórum hluta á jólapottana þegar kemur að þessari aðstoð. Það er því ákveðið áhyggjuefni að á sama tíma og beiðnum um aðstoð fjölgar hefur innkoman í jólapottana minnkað. Hjördís Kristinsdóttir, flokksforingi í Reykjavík, segir innkomuna í fyrri hluta desember minni en hún var á sama tíma á síðasta ári.
Hér má lesa nánar um velferðarstarf Hjálpræðishersins og í hvað peningarnir sem koma í jólapottana eru notaðir.
Við þökkum þeim einstaklingum, fyrirtækjum og samtökum sem styrkja starfið með ýmsum hætti.