Viðtalið birtist í jólablaði Herópsins 2020.
Þóra Björg Guðjónsdóttir starfar hjá Reykjavíkurborg sem unglingaráðgjafi í þjónustumiðstöð Breiðholts. Síðustu misseri hefur þjónustumiðstöðin átt gott samstarf við Hjálpræðisherinn.
Þóra segir samstarfið hafa byrjað vegna þess að Hjálpræðisherinn og þjónustumiðstöðin voru staðsett í sama húsnæði í Mjóddinni. „Við græddum á nálægðinni þegar Hjálpræðisherinn var í Mjóddinni. Á tímabili var mikil hópamyndun meðal unglinga í hverfinu og Hjördís, foringi hjá Hjálpræðishernum, hafði samband við okkur vegna þess. Við ákváðum að hittast, ræða málin og kortleggja stöðuna. Margir notendur hjá okkur höfðu fengið athvarf hjá Hjálpræðishernum og því fengum við góðar upplýsingar um ástandið, sem við gátum síðan brugðist við. Í framhaldinu var samstarfið víkkað út og félagsmiðstöðvar og lögregla komu að borðinu.“
Þóra segir ýmislegt í starfi Hjálpræðishersins hafa komið sér skemmtilega á óvart. „Við þekktum lítið til starfs Hjálpræðishersins en við fengum kynningu á því og sáum að Herinn býður upp á margt sem okkur vantar. Til dæmis aðstoð við heimanám, sem er ofsalega mikilvæg þjónusta sem hvorki við eða skólarnir höfðum upp á að bjóða. Við vísuðum mörgum börnum þangað og þegar þau voru komin inn á Her kom í ljós að þar var boðið upp á ýmislegt fleira, til dæmis barna- og unglingastarf.“
Starfsfólk annarra sviða Reykjavíkurborgar hefur einnig leitað til Hjálpræðishersins og Þóra segir að almennt sé fólk ánægt með samstarfið. Sjálf nefnir hún sérstaklega verkefnið Brave. „Ég bíð spennt eftir Brave verkefninu en okkar aðkoma felst í því að finna stúlkur sem þurfa á slíku verkefni að halda. Við unglingaráðgjafarnir í Breiðholtinu erum búnir að funda með Hernum varðandi verkefnið og drögum aðra unglingaráðgjafa borgarinnar með okkur. Nú bíðum við eftir því að ástandið í þjóðfélaginu lagist svo við getum heimsótt Hjálpræðisherinn í nýja húsnæðið og fengið kynningu á því starfi sem Herinn hefur upp á að bjóða. Ég er viss um að það er ýmislegt sem við getum nýtt okkur og jafnvel unnið í samstarfi.“
Þóra segir það mikilvægt fyrir nærsamfélagið að hafa samtök eins og Hjálpræðisherinn á staðnum. „Ég sakna þeirra úr Mjóddinni en þegar tengingin er komin á er þetta mikið auðveldara þótt við séum ekki lengur í sama húsnæði. Hjálpræðisherinn býður upp á svo margt sem fólk getur nýtt sér. Til dæmis er frábært að sjá saumaverkefnið með konunum í Mjóddinni, þar sem félagsleg einangrun er rofin. Sveitarfélagið getur reglum samkvæmt bara boðið upp á ákveðnar lausnir og þegar annað er fullnýtt er gott að geta leitað til svona samtaka.“ Hún segir það einnig mikilvægt fyrir ráðgjafana að hafa úr einhverju að velja þegar verið er að vinna með mál einstaklinga. Að lokum segist hún mjög ánægð með samstarfið við Hjálpræðisherinn hingað til. „Ég hef tekið eftir því að á Hernum skiptir engu máli hver viðkomandi er eða á hvað viðkomandi trúir, allir eru velkomnir.“