Það var þann 12. maí 1895 að starfsemi Hjálpræðishersins á Íslandi hófst með útisamkomu á Lækjartorgi og síðar þann sama dag annarri samkomu í Góðtemplarahúsinu. Fyrr í mánuðinum höfðu þeir kommandör Christian Erichsen sem var danskur að uppruna og Íslendingurinn kapteinn Þorsteinn Davíðsson komið til landsins með það að markmiði að hefja starfsemi Hersins hér á landi. Hafði þá Hjálpræðisherinn verið að störfum víða um heim frá árinu 1865 þegar Hjálpræðisherinn var stofnaður í London af hjónunum William Booth og Catherine Booth.
Foringjarnir tveir festu fyrir hönd hersins kaup á fasteigninni Kirkjustræti 2 þar sem áður hafði verið rekið hótel að nafni „Hótel Reykjavík“. Þar var rekið sjómannaheimili og „flokkur“ en það kallast söfnuðir Hjálpræðishersins. Foringjarnir ferðuðust einnig víða um landið og boðuðu fagnaðarerindið ásamt því að kynna mannúðarstarf Hersins fyrir landsmönnum.
Síðan þá hefur ýmislegt gerst. Hjálpræðisherinn hefur starfað á mörgum stöðum á landinu en starfar nú á Akureyri, í Reykjanesbæ og Reykjavík. Herkastalinn var seldur árið 2016 og árið 2018 var fyrsta skóflustungan að nýju húsi tekin. Það er okkur mikið gleðiefni að á afmælisárinu mun Hjálpræðisherinn í Reykjavík ásamt höfuðstöðvum Hjálpræðishersins á Íslandi flytja inn í glæsilega nýja byggingu við Suðurlandsbraut. Við trúum því að með þessu nýja og fjölnota húsi hefjist nýr og spennandi kafli fyrir Hjálpræðisherinn á Íslandi. Markmiðið er það sama og í upphafi, að boða fagnaðarerindi Jesú Krists og í hans nafni mæta þörfum fólks án mismununar.
Hér má sjá frétt um afmæli Hjálpræðishersins.
Hér er afmælishappdrætti Hjálpræðishersins, sem fer fram seinna í dag.
Í tilefni dagsins settum við saman myndband með kveðjum frá meðlimum og velunnurum Hjálpræðishersins á Íslandi. Myndbandið verður aðgengilegt á síðunni seinna í dag.
Kæru vinir - við óskum okkur öllum til hamingju með daginn! Takk fyrir ykkar þátt í starfi Hjálpræðishersins á Íslandi. Án ykkar væri þetta ekki mögulegt. Við erum þakklát fyrir að Hjálpræðisherinn hafi fengið að starfa á Íslandi í 125 ár og lítum bjartsýn til spennandi tíma í framtíðinni!