HIV/Alnæmi

Hjálpræðisherinn trúir því að sérhver einstaklingur sé verðmætur í augum Guðs. Óháð því hvaða sjúkdómur eða þjáning háir einstakling ætti hann aldrei að þurfa að upplifa það að verða fyrir útskúfun eða höfnun frá einhverjum einstaklingi eða því samfélagi sem hann lifir í. 

Margt fólk hefur orðið fórnarlömb alnæmisfaraldursins. Þetta á við um fóstur, börn, þá sem eru með blæðingarveiki og aðra sem hafa fengið blóðgjafir, samkynhneigða, tvíkynhneigða og fólk sem lifir í gagnkynhneigðum samböndum. Síðastnefndi hópurinn er í dag mest vaxandi hópurinn af alnæmissmituðum og mun við árþúsundsskiptin, samkvæmt spám, hafa numið u.þ.b. 80% af heildarfjölda alnæmissmitaðra. 

Það leikur enginn vafi á því að kynferðisleg hegðun innan ramma varanlegs sambands, líkt og hjónabands, mun virka hamlandi á alnæmisfaraldinn. Í varanlegu sambandi karls og konu sneiðir fólk hjá tíðum makaskiptum og kynlífi með ókunnugum. Með því að forðast slíka áhættuhegðun ásamt því að forðast endurnotkun á sprautum meðal eiturlyfjaneytenda minnkar áhættan á smitun verulega. 

Hjálpræðisherinn vill – svo fremi sem mögulegt er – miðla þekkingu og upplýsingum um mikilvægi þess að vera í þeim varanlegu samböndum sem lýst er hér að framan. 

Hjálpræðisherinn mun halda áfram að reka upplýsinga- og forvarnastarfsemi fyrir markhópa sem eru í sérstakri áhættu. 

Hjálpræðisherinn mun sjá til þess að veita hjúkrunarstarfsfólki sínu nauðsynlega menntun til þess að geta veitt fullnægjandi meðferðar- og umönnunarúrræði til handa alnæmissmituðum sem eðlilega falla undir okkar úrræði. 

Hjálpræðisherinn mun taka þátt í forvarnarvinnu gegn alnæmissmitun. Í þessari vinnu verður markmið okkar að vinna að því að skapa viðhorf í samfélaginu sem leiða til þess að hegðun áhættuhópsins breytist og alnæmisfaraldurinn verði þannig beislaður og útbreiðslan minnki. 

Meðlimir Hjálpræðishersins bera eigin ábyrgð á því að sjá til þess að þeir lífsstílsstaðlar sem við fylgjum eru í samræmi við meginreglur Hjálpræðishersins.


Þemaarkir frá Hjálpræðishernum - 2001