Ábyrgð mannsins

Í 1 Mós 2,15 stendur að Guð setti manninn í það að rækta og vernda garðinn. Það þýðir að maðurinn á að hafa umsjón með sköpunarverkinu. Að vera umsjónarmaður felur í sér að annast eitthvað fyrir hönd einhvers annars, ekki með því að drottna, heldur með tryggð og skynsemi. Dag einn mun umsjónarmaðurinn þurfa að standa í skilum gagnvart Guði sem rétti honum verkefnið. 

Mennirnir hafa sérstöðu í sköpunarverkinu – ásamt plöntum, dýrum og öllu öðru í náttúrunni. Náttúran hefur þó sitt eigið gildi sem við virðum með því að varðveita heildina og samhengið í vistkerfinu. Vernd sköpunarverksins felur í sér litla hluta heildarinnar jafnt sem stórar, hnattrænar áskoranir. Hin lífræna fjölbreytni og loftslagsbreytingarnar eru tvö svið sem veita mönnunum miklar áskoranir. 

Fólksfjöldaþróunin er önnur áskorun með spurningum um hversu margt fólk rúmast á jörðinni og hversu mikla neyslu sérhver einstaklingur á að eiga rétt á. Málið snýst mest af öllu um að skipta auðlindunum og deila arðinum. Bilið á milli ríkra og fátækra verður sífellt stærra, bæði frá einu landi til annars og innan hvers þeirra. Peningar og völd eru notuð til þess að viðhalda óréttlætinu. Biblían varar ákaft við hættum ríkidæmisins og talar ávallt gegn undirokun. Hjálpræðisherinn vill stuðla að því að málflutningur Biblíunnar leiði af sér afleiðingar fyrir tengsl hinna ríku við hina fátæku. 

Tengsl mannsins við sköpunarverkið einkennast af að „fullnýta“ í stað þess að „rækta og vernda garðinn“ og afleiðingin er sú að lífsskilyrðum fyrir komandi kynslóðir er ógnað. Við einkennumst meira en nokkru sinni fyrr af neyslumenningunni og hún tengir gildi okkar sem einstaklinga við neysluna. Þrátt fyrir að tengslin séu flókin og að okkur sem einstaklingum geti fundist við vera valdalaus, er mögulegt að nota þekkingu okkar þannig að við verðum betri umsjónarmenn. 

Hjálpræðisherinn vonast eftir vitundarvakningu sem vinnur gegn lífsstíl sem einkennist af ríkidæmi og efnishyggju, skeytingarleysi og vanmætti. Þessi vitundarvakning getur hjálpað okkur til að beita okkur fyrir samfélaginu umfram eigin hagsmunum, til að velja lífsgæði umfram sífellt hærri lífsstandard. 

Hjálpræðisherinn telur að vor kristna trú hljóti að fela í sér afleiðingar varðandi það hvernig við gætum sköpunarverksins. Trúin verður einungis trúverðug þegar við erum fús í uppgjör við okkur sjálf og þegar við leyfum þekkingu að leiða okkur til athafna.


Þemaarkir frá Hjálpræðishernum - 2001