Upphaf Hjálpræðishersins á Íslandi

Hjálpræðisherinn kom til Íslands í byrjun maí 1895. Frumherjar starfsins voru Christian Erichsen, yfirforingi og adjutant frá Danmörku, og Þorsteinn Davíðsson, íslenskur kapteinn ættaður frá Vatnsdal í Húnavatnssýslu. Þeir tóku sér gistingu á gamla "Hótel Reykjavík" og festu kaup á húsinu í október hið sama ár. Og frá þeim tíma hefur þessi bygging í Kirkjustræti 2 verið nefnd "Herkastalinn".

12. maí 1895 merkir upphaf starfs Hjálpræðishersins á Íslandi en þá héldu félagarnir tveir útisamkomu á Lækjartorgi og fyrstu samkomu sína í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík, sem þeir höfðu fengið að láni.

Starfið bar fljótt ávöxt, því fyrsta hermannasamkoman var haldin þegar í byrjun júní. Um aldamótin má segja að starfsemin hafi verið komin í fastar skorður, talsvert margir hermenn í Reykjavík og starfað hafði verið á nokkrum stöðum í nágrenninu svo sem Akranesi og Eyrarbakka.

Gistiheimilið í Herkastalanum var opnað 2. apríl 1898 eftir að stabskapteinn Bojesen tók við sem yfirforingi. Hann sá að tilfinnanlegur skortur var á gistihúsi þar sem ferðamenn gætu fengið ódýra gistingu og fæði.

Gistiheimili var einnig opnað á Akureyri 1916, í Hafnarfirði 1920, á Ísafirði 1922,

á Seyðisfirði 1923 og tilraunir gerðar 1924 á Norðfirði og Vestmanna­eyjum. Gistiheimilin voru einnig samastaður fólks sem hvergi átti höfði sínu að að halla. Þannig gegndu þau að vissu leyti hlutverki þurfamannahæli.

Starfsemin á Íslandi má segja hafi tekið tiltölulega fljótt við sér. Starfsemi hófst formlega á Ísafirði í október 1896, á Fellsströnd um 1901 (án salarkynnis), á Akureyri í maí 1904, í Hafnarfirði 1908, á Siglufirði 1908 (eignaðist sal 1914) og á Seyðisfirði í 1912 (tilraunir gerðar fyrst í 1896).

Vistheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi tók til starfa 1968.

Starfsemi hófst í Reykjanesbæ í nóvember 2007.

Í dag starfar Hjálpræðisherinn á Akureyri, í Reykjanesbæ, í Reykjavík og á Seltjarnarnesi.

Meira um söguna er einnig undir "Líknar- og félagsþjónustu".

Heimildir:

"Með himneskum armi" eftir Pétur Pétursson 1995.

Herópið o.fl.