Alþjóðleg Saga Hjálpræðishersins

Hjálpræðisherinn varð til undir berum himni og þann sögulega atburð er auðvitað bæði hægt að tíma- og staðsetja. Staðurinn var Whitecapel.
Á þeim tíma var það eitt aumasta fátækrahverfi Lundúnaborgar.
Það má gjarnan líta á það sem fyrirboða um framtíðarstarf hreyfingarinnar meðal þeirra sem minnst máttu sín í samfélaginu.

Alþjóðleg Saga Hjálpræðishersins

Upphafið

Sunnudagurinn 2. Júlí 1865 verður að teljast sjálfur upphafsdagurinn. Þann dag hóf einmitt hinn 36 ára gamli William Booth samkomuherferð í Whitecapel. Dagskráin var útisamkomur hvern dag og vakningarsamkoma á kvöldin. Sú síðarnefnda var haldin í lélegu tjaldi á aflögðum kirkjugarði kvekara, rétt við illræmdustu skuggahverfin í Whitecapel Road. Þar sem tjaldið fauk fljótlega niður (eða var rifið niður, eins og margir héldu fram), urðu útisamkomurnar eini kosturinn. Það má því segja með fullum rétti að Hjálpræðisherinn hafi byrjað undir berum himni og allslaus.

Hinn háværi, fyrirmannlegi William Booth dró að sér stóra hópa fólks, hvort sem var á útisamkomu eða í tjaldinu. Ef til vill er það satt sem haldið var fram, að hann hafi sett regnhlífina fyrir framan sig á götunni og talað til hennar. Það gæti eflaust verið áhrifamikið auglýsingabragð. Aðrir telja aftur á móti að hann hafi ekki haft þörf fyrir slíkt tiltæki. Persónuleiki Williams Booth var öllum augljós og það var einmitt hann ásamt ótvíræðum hæfileikum hans í ræðumennsku, sem hafði leitt hann inn í þessi nýju verkefni í Austur Lundúnum. Bjartsýni og baráttukjark skorti heldur ekkert á. Ásamt sínum tryggu aðstoðarmönnum vakti þessi hlýi og ákafi prédikari mikla athygli og stórir skarar fólks fylktu sér um þennan einstaka mann.

Að meirihluti safnaðarins var fátækt og illa statt fólk, þarf ekki að koma neinum á óvart þar sem þetta fór allt fram í bæjarhluta, sem var alræmdur sem "graftarkýli á hinu enska samfélagi".

 

London 1865

Í "Enskri sögu" lýsir rithöfundurinn Arthur Bryant skuggahverfum Austur Lundúna á þessum tíma þannig:

"Hér lifðu hinir fátæku, ekki aðeins heiðarlegi iðnverkamaðurinn, heldur ótal einstaklingar, sem iðnaðarkerfið hafði brotið niður. Þetta voru fölir náungar sem lyktuðu af gini. Þeir gengu í útslitnum illa lyktandi flíkum sem höfðu gengið í gegnum ýmiss þjóðfélagsstig á leiðinni til glötunar. Nú voru fötin nánast í upplausnarástandi og settu blett á hvað sem þau komu við. Og eins og áður er sagt: Það var óþefur. Þeir hópuðust saman í niðurnýddu leiguhúsnæði og krám þar sem allt moraði í skordýrum. Þeir sváfu undir járnbrautarbrúm og á járnbekkjunum með fram hinum nýja Victoría Embankment. Þeir voru úrhrök fátæklinganna, draugurinn sem gekk aftur í hinum óhóflegu veislum viktoríutímabilsins, hinar dökku rúnir á hvítkalkaða veggnum."

Sagnfræðingur Hjálpræðishersins, hershöfðinginn Frederik Coutts, slær því föstu að William Booth hefði ekki getað fundið erfiðari og grýttari jarðveg fyrir hið góða sæði, en það sem hann stóð frammi fyrir í Austur Lundúnum. En það var einmitt slík áskorun sem heillaði William Booth. Hans djúpa og einlæga köllun var í gegnum allt lífið af mannúðar og trúarlegum toga, og það var bráðnauðsynlegt að þessi þörf til mannúðarmála fengi starfsvettvang.

 

Booth fjölskyldan

Kynnin af illa stöddum fólksfjöldanum, sem var dæmdur til að vera undirmáls þegnar í samfélaginu snertu hjarta Williams Boots og varð að ákveðinni köllun fyrir framtíð hans.

Booth fjölskyldan, sem var á þessum tíma, auk Williams, eiginkonan Catherine, og sex börn, hafði nýlega flutt til Lundúna. Kvöld nokkurt í júní hafði William Booth verið á trúarlegri útisamkomu, sem haldin var fyrir framan krána "Blindi betlarinn" í Austur-Lundúnum Við lok samkomunnar spurði stjórnandinn hvort einhver áheyrandanna vildi segja eitthvað. Hinn hvatvísi William Booth þurfti ekki tvær áskoranir. Hann tók orðið og hlýr persónuleiki hans heillaði bæði samkomugesti og ekki síður þá, sem stóðu fyrir samkomunni. Þetta leiddi til þess að hann var beðinn um að taka að sér ábyrgð á skipulagðri samkomuherferð, og kvaðst hann fús til þess.

 

Hvað hugsaði William Booth?

Seinna greindi Booth frá ástæðum þess að hann sagði já við áskoruninni frá þessu helvíti fátæktarinnar. Ástæðunum ætti helst að greina frá með hans eigin orðum, og hér koma þau:

"Mér fannst ég dragast af miklum krafti að þessum vesælu manneskjum, sem virtust án Guðs og vonar í heiminum, og sem höfðu ekki heyrt raust prédikara árum saman, eftir því sem mér var sagt. Hér er þinn staður, hvíslaði rödd í eyra mér, og ég fylltist þrá eftir að gefast Kristi, eins og postuli, fyrir heiðingjana í Austur Lundúnum. Ég fór til heimilis míns í West-End og sagði við konu mína: "Kate, ég hef fundið ævistarf mitt". Þegar ég gekk framhjá upplýstum kránum í kvöld, var eins og rödd segði: Hvar finnast aðrir eins heiðingjar og hér, og hvar er vinnu þinnar fremur þörf? Á þeirri stundu gaf ég Guði, sjálfan mig og þig og börnin okkar, til þessa mikla verkefnis. Þetta á að verða okkar fólk, og okkar Guð á að verða þeirra Guð."

 

Hvað hugsaði Catherine Booth?

Catherine Booth hefur einnig sagt frá viðbrögðum sínum við þessari mjög svo eindregnu ákvörðun:

"Ég sat og starði inn í eldstóna, og djöfullinn hvíslaði: Þetta þýðir að byrja á ný frá upphafi. Spurningin um afkomu okkar olli miklum áhyggjum. Hingað til höfðu útgjöld okkar verið greidd af samskotum frá þeim sem meira máttu sín. En þetta fátæka fólk í Austur-Lundúnum gátum við ekki einu sinni vogað okkur að biðja um samskot. Eftir nokkurra augnablika hljóða bæn og umhugsun svaraði ég: "Ef þér finnst þú eiga að gera þetta, þá gerðu það. Við höfum áður treyst á Guð einan um afkomu okkar. Við getum gert það aftur."

Saman lutum við Guði í auðmýkt og vígðum líf okkar þessu verkefni, sem okkur fannst við hafa beðið um í mörg ár."

 

Heimildir:

(Úr bókinni "Með kærleikann að vopni" eftir Charles Norum)

Alþjóðleg saga á alþjóða heimasíðu Salvation Army.