líknar og félagsþjónusta á Íslandi

Köllun Williams Booths hershöfðingja var að frelsa þá sem væru dýpst sokknir í syndafen þessa heims. Hann sagðist finna sérstaka gleði í því að umgangast þá sem dýpst voru sokknir í eymdina og reyna að hjálpa þeim sem engin úrræði áttu. Hann vildi vinna “þá verstu fyrir Guð”.

Eftirfarandi slagorð hafa verið gerð að einskonar einkunnarorðum Williams:

  • Svo lengi sem konur gráta eins og nú skal ég berjast!
  • Svo lengi sem börn þjást eins og nú skal ég berjast!
  • Svo lengi sem fangelsi eru full af fólki skal ég berjast!
  • Svo lengi sem rónar og fallnar konur eru á götum úti, svo lengi sem nokkur sála er til sem lifir án ljóss Guðs skal ég berjast áfram!


Í 25 ára afmælisriti Hjálpræðishersins á Íslandi er eftirfarandi lýsing á hjúkrunarstarfi og líknarþjónustu Hersins:

"Þetta starf útheimtir mikla sjálfsafneitun og fórnfýsi... 
Hjúkrunarsystirin lætur sér sem sé ekki nægja að annast um sjúklinginn, hún hreinsar til á heimilinu, þvær börnunum, býr til mat handa heimilisfólkinu, þ.e. ef nokkuð er til að búa til mat úr. Og sé það ekki fyrir hendi, hvað gerir hún þá? Hafi hún peninga, þá kaupir hún fyrir þá það sem vantar, en með því fjárhagur hjúkrunarsysturinnar er sjaldan góður, kemur það fyrir, að einnig þetta sund er lokað.
Hjúkrunarsystirin deyr þó ekki ráðalaus, ... nei, hún finnur húsfreyjur bæjarins að máli, eina eða fleiri eftir atvikum, lýsir ástandinu fyrir þeim, og áður langt um líður, hefir hún fengið loforð um, að mega sækja miðdegisverð handa 7 heimilum á viku og þá er sú raunin á enda.
Starfsemi hjúkrunarsysturinnar útheimtir ennfremur oftlega áræði, því hjúkrunarstarfið er engan veginn hættulaust þar sem næmar og hættulegar sóttir ganga."

Gisti- og sjómannaheimili

Hér á Íslandi þjónaði gistiheimilareksturinn sjómönnum í miklum mæli og þau voru öðrum þræði sjómannaheimili. Gistiheimili var opnað í Reykjavík 1898, á Akureyri 1916, í Hafnarfirði 1920, á Ísafirði 1922, á Seyðisfirði 1923 og tilraunir gerðar 1924 á Norðfirði og Vestmanna­eyjum. Gistiheimilin voru einnig samastaður fólks sem hvergi átti höfði sínu að að halla. Þannig gegndu þau að vissu leyti hlutverki þurfamannahæli. Var slík þjónusta oft á tíðum vel þegin af bæjaryfirvöldum sem studdi þessi gistiheimili fjárhagslega.

Samverjinn, líknarfélag sem sá um matargjafir til fátækra, starfaði nokkur ár fra 1916 á Ísafirði á vegum Hersins. Félagsskapurinn var stofnaður að fyrirmynd líknarstarfsemi, sem hafist hafði í Reykjavík árið 1914 á vegum fimm félaga umdæmisstúkunnar. Samskonar skipulagt líknarstarf hófst einnig í Reykjavík árið 1928.

Sjúkrahús. Gisti- og hjúkrunarheimili var eins og áður segir í Hafnarfirði og var rekið af foringjum Hersins. Það var kostað af frjálsum framlögum en mestu munaði þó um framlög sýslu- og bæjarfélagsins. Árið 1928 var heimilið alfarið tekið í notkun sem sjúkrahús og þá breytt í berklahæli, en rekið áfram af Hernum. Á þessum tíma höfðu St. Jósefssystur reist myndarlegan spítala í Hafnarfirði og olli það þáttaskilum í þjónustu við sjúklinga þar í bæ. Hjálpræðisherinn rák þó áfram sjúkrahús sitt til ársins 1932.

Á vegum Hersins voru starfræktar tvær sjómannastofur á Akureyri frá 1934 og fram að stríðsárunum, einnig starfrækt vöggustofa í Reykjavík árin 1941-42 og skólaheimili á Seltjarnarnesi árin 1965-67 fyrir stúlkur sem höfðu komist í kast við lögin eða voru á glapstigum.

Vistheimilið Bjarg á Seltjarnarnesi tók til starfa 1968 og veitir langtíma geðfötluðum einstaklingum heimili. Heimilið hefur pláss fyrir 12 einstaklinga og er á föstum fjárfram­lögum frá Heilbrigðis­ráðuneytinu.

Jólasöfnun

Sérstakar safnanir til handa fátækum hefur alltaf farið fram fyrir jólin, en jólapottarnir svokölluðu eru vel þekkt fyrirbæri í verslunargötum og á torgum á þessum árstíma. Alveg frá upphafi starfsins á Íslandi var að hausti til hin árlega sjálfsafneitunarvika, en þá var ætlast til þess að vinir og velunnarar Hersins, auk liðsmanna, létu eitthvað af hendi rakna til starfsins með því að neita sér um eitthvað í mat eða öðru sem ekki var brýn nauðsyn.

Heimild: 
"Með himneskum armi" eftir Pétur Pétursson 1995.
Herópið nr. 1-2/1980 og 2/1990