Miriam í Panama1984-1992

Miriam Óskarsdóttir segir frá
 

“Ég var aðeins þrjú ár á stúlknaheimilinu í Sabanítas. Þar á eftir var ég að vinna við safnaðarstarf, var ábyrg á skólastarfi, barna- og unglingastarfi, með útvarpsþætti, skipulagði neyðaraðstoð o.s.frv.

Má geta þess að smám saman kom sífellt meiri fjárhagsstyrkur frá Íslandi og vegna þess hversu lágt kaupið var í Panama, var hægt að borga kaup fyrir fleiri einstaklinga. Súpueldhús voru opnuð, ýmis konar aðstoð veitt börnum og unglingum, m.a. voru haldin námskeið og mót. Bíll (minibus) var fjármagnaður að mestu leyti með aðstoð frá Íslandi, viðhald á húsnæði varð mögulegt og lengi mætti telja.

Margir gáfu reglulega í þetta starf, bæði einstaklingar og söfnuðir. Við náðum þannig að hjálpa og blessa marga, aðallega börn og aldraða sem áttu erfitt. Einu sinni tókst okkur að fá til okkar fullt af skóm sem við höfðum fengið gefins hjá skóverslun Þórðar Péturssonar og nokkrum öðrum skóverslunum hér á landi. Þeir komu til landsins einmitt þegar áin í Chilibre hafði farið yfir bakka sína og tekið með sér allt sem í vegi hennar varð. Skórnir voru því kærkomnir og urðu þá hálfgerð tískuvara.

Þegar ég fór frá Panama árið 1992 voru í rauninni margir sem hættu að styrkja starfið þar, því miður.

Í lok ársins 2003 fórum við Aslaug Langgård í heimsókn til Panama og heimsóttum m.a. stúlknaheimilið. Það var þá í mjög slæmu ástandi. Viðargólfið á annari hæð var illa farið, skordýrin notuðu það eflaust í veislurnar hjá sér. Það var svo lélegt að ég þorði ekki að fara þangað upp. Við fréttum svo nokkru síðar að gólfið hafði hrunið og þörf væri á að endursmíða heimilið.

Ég var að fara á 100 ára afmæli Hjálpræðishersins þá (sumarið 2004). Mamma hafði verið mjög veik á sjúkrahúsinu og ég hélt jafnvel að ég færi hvergi. Hún vaknaði svo aftur til lífsins og ákveðið var að ég færi á afmælið, en mig langaði að hafa hjálparpening með mér út.

Það var þá sem Siri Didriksen, starfsmaður Útvarpsstöðvarinnar Lindarinnar, hratt af stað mikilli markaðssetningu og innsöfnun fyrir stúlknaheimið. Á fyrri hluta sumarsins 2004 söfnuðust þar af leiðandi um 690.000 krónum. Hjálpræðisherinn í Bandaríkjunum tók einnig þátt í verkefninu og því tókst að ljúka því. Þessi fyrsti áfangi hljómaði upp á rúma milljón.

Síðan þá hefur átakið haldið áfram, nokkuð sem eykur einnig möguleika stúlknanna til náms og betra lífs. T.d. er eitt herbergi fullt af tölvum fyrir stelpurnar. Nokkuð sem er nauðsynlegt að kunna á í nútíma samfélagi.