Gísli

Gísli

"Áður hafði ég ekki þorað að mæta á Hjálpræðisherinn. Ég vissi fyrir hvað Herinn stóð, en tók ekki þátt í starfinu. Ég var ekki hluti af kristnu samfélagi þótt ég hafi alist upp á kristnu heimili."

"Áður hafði ég ekki þorað að mæta á Hjálpræðisherinn. Ég vissi fyrir hvað Herinn stóð, en tók ekki þátt í starfinu. Ég var ekki hluti af kristnu samfélagi þótt ég hafi alist upp á kristnu heimili."

 Gísli bjó í 2-3 ár á Bjargi, vistheimili Hjálpræðishersins fyrir fólk með geðsjúkdóma. Þar kynntist hann starfi Hjálpræðishersins. Árið var 1972 og Gísli var 25 ára gamall. Hann hafði nýlega misst bróður sinn í sjóslysi og þurfti á því að halda að draga sig út úr daglega lífinu.

 "Ég hef aldrei verið eins fljótur að svara eins og ég var þegar læknirinn spurði hvort ég vildi leggjast inn á Bjarg. Það vildi ég."

 Meðan á dvölinni þar stóð byrjaði Gísli að taka þátt á samkomunum sem þar voru haldnar. Hann var í eitt ár á Bjargi, þangað til hann var útskrifaður. Þrátt fyrir að vera farinn af Bjargi, sagði hann ekki skilið við Hjápræðisherinn. Þótt dvölinni væri lokið, átti Hjálpræðisherinn eftir að vera stór hluti af lífi hans.

 "Ég fann að Jesús kallaði mig til að taka þátt. Ég vildi vera með, vegna þess að ég vann hversu góður Hann var og hversu gott starf Hjálpræðisherinn vann. Ég er samherji í Hjálpræðishernum í Reykjavík. Á meðan ég hafði heilsu til, hjálpaði ég til á dagsetrinu sem Hjálpræðisherinn rak fyrir heimilislausa."

 Þar sá hann um að bera fram kaffi og mat. Á sama tíma hjálpaði hann til þegar Reykjavíkuflokkur hafði opið hús. Í dag kemur líkamleg heilsa í veg fyrir að hann aðstoði á þennan hátt en hann mætir samt á samkomur eins oft og hann getur. Á Iceland Airwaves fyrir ári síðan, voru ókeypis tónleikar í húsi Hjálpræðishersins í Kirkjustræti. Á hverju kvöldi mætti Gísli, með kaffibollann í annarri hendi og myndavélina í hinni.

 "Það var frábært að sjá salinn fullan af fólki. Það er mikilvægt að fá aftur ungt fólk í húsið. Ef það þarf að breyta einhverju, verðum við að vera tilbúin til að gera breytingarnar. Ég hef beðið fyrir nýrri kynslóð í húsið og það er gott að sjá að breytingin er þegar hafin. Ég vona að fleiri kynnist Jesú og Hjálpræðisherinum. Þetta er mér allt. Hjálpræðisherinn á hjarta mitt."