Saga Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ

Saga Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ

Drottinn blessi þig

Þann 20. ágúst 2007 fluttu Hjálpræðishers kafteinarnir Ester Daníelsdóttir og Wouter van Gooswilligen til Íslands, ásamt þremur börnum sínum. 
Var verkefni þeirra hjónanna að vera brautryðjendur Hjálpræðishersins og ”hertaka Reykjanesbæ”, boða orð Guðs og láta gott af sér leiða í samfélaginu.

Strax tveimur vikum eftir að fjölskyldan flutti til landsins, var gospelkórinn KICK stofnaður og einnig hófst krakkagospel í samstarfi við KFUK, Keflavík. Það verkefni endaði með útgáfu geisladisksins ”Gospelgleði” sem kom út í ágúst 2008. 

Fyrstu samkomur Hjálpræðishersins í Reykjanesbæ voru haldnar í bílskúrnum og á heimili  foringjahjónanna á Hólabraut 7. En í nóvember var sérstaklega ”haldið upp á” komu Hjálpræðishersins til Reykjanesbæjar með samkomu á Vallarheiði og í Njarðvíkurkirkju. 

Lýsir Ester þessum fyrsta vetri í Keflavík sem «meðgöngutíma» Hjálpræðishersins þar, ”maður finnur fyrir lífi, það eru miklar eftirvæntingar og mikil hugsjón fyrir starfinu. Við bíðum eftir «fæðingunni» og erum þess meðvituð að hún geti orðið strembin og hörð. Við biðjum fyrir og erum að undirbúa það sem koma skal. Treystandi því að Drottinn gangi fyrir og sé með okkur í þessu. Þetta er hans verk en ekki okkar,” segir Ester.

Ester og Wouter hafa þennan fyrsta vetur aðeins verið að vinna í hlutastarfi fyrir Hjálpræðisherinn. Wouter stundaði guðfræðinám og lærði íslensku, á meðan Ester vann í Myllubakkaskóla. Húsnæðisleit fyrir framtíðarstarf Hjálpræðishersins hófst og tengsl fór að myndast við bæjarbúa. 
Mikið var beðið, bæði fyrir og með einstaklingum, fyrir Reykjanesbæ og framtíð Hjálpræðishersins þar. 

Hvað liggur fyrir framundan?

Þegar þetta er ritað í ágúst 2008, má segja að ”fæðingin sé að hefjast”. 
Verið er að ganga frá kaupum á húsnæði nr. 730 við Flugvallarbraut, sem er á fyrrum varnarsvæði Bandaríkjahers. 
Er herfólkið á Suðurnesjum nú tilbúið í að hefja starfið að fullu. 
Á meðan verið er að gera upp húsakynnin mun starfsemin fara fram á víð og dreif um bæinn. Verður það nánar auglýst síðar.

Margt spennandi verður í boði Hjálpræðishersins fyrir alla fjölskylduna, og meira mun bætast við með tímanum.